IS Haf kaupir meirihluta í NP Innovation
IS Haf hefur undirritað kaupsamning vegna fjárfestingar í NP Innovation AB. NP er sænskt félag sem þróar, framleiðir og selur vatnsmeðhöndlunarlausnir fyrir fiskeldi. Félagið var stofnað árið 2011 af Nils-Åke Persson og starfa hjá því 25 manns. Höfuðstöðvar eru í Malmö, en félagið er einnig með starfsemi í dótturfélögum bæði á Íslandi og í Noregi.
Félagið gegnir lykilhlutverki í ört vaxandi hluta laxeldisiðnaðar, þ.m.t. uppbyggingu landeldis og stórseiðaframleiðslu. Félagið framleiðir lausnir sem nýtast við vatnshreinsun og vatnsmeðhöndlun í fiskeldi og eru helstu framleiðsluvörur félagins loftarar (Degassers), diskasíur (Diskfilters) og tromlusíur (Drumfilters). Félagið selur jafnframt lausnir sínar til seiðaelda, brunnbátaþjónustu, sveitarfélaga vegna síunar skólps og annars iðnaðar. NP hefur náð miklum vexti undanfarin misseri og er félagið leiðandi á sínu sviði. Fjárfestingateymi sjóðsins telur sjóðinn geta stutt við þennan vöxt og náð fram samlegð með öðrum fjárfestingum sjóðsins.
Um er að ræða kaup á öllu hlutafé NP, en núverandi hluthafar og lykilstarfsfólk endurfjárfesta hluta kaupverðsins og munu eiga 15% í NP eftir viðskiptin. Þar á meðal er stærsti seljandinn, Broodstock Capital, sem er norskt fjárfestingafélag með sérhæfingu í sjávarútvegi og fiskeldi, auk stofnandans Nils-Åke Persson og bæði forstjóra og stjórnarformanns félagsins. Viðskiptin eru framkvæmd í gegnum félagið NP Invest ehf. og eru að hluta til fjármögnuð með lánsfjármögnun þess félags.