Varist sækir milljarð í nýtt hlutafé

Íslenska netör­ygg­is­fyr­ir­tækið Var­ist ehf., áður dótt­ur­fé­lag OK (Opin kerfi), hef­ur tryggt sér 975 millj­ón­ir króna í nýju hluta­fé. Fjár­magnið verður nýtt til að sækja fram á ört vax­andi netör­ygg­is­markaði með nýrri lausn sem ger­ir fyr­ir­tækj­um og stofn­un­um kleift að verj­ast nýrri kyn­slóð tölvu­vírusa.

Var­ist, sem var stofnað í mars í fyrra, sér­hæf­ir sig í netör­ygg­is­lausn­um á sviði víru­svarna. Yfir 30 ár eru liðin síðan lausn­ir fyr­ir­tæk­is­ins litu fyrst dags­ins ljós, þá und­ir nafn­inu Lykla-Pét­ur. Fé­lagið hef­ur ný­lega sett á markað nýja vöru, Hybrid Ana­lyzer, sem grein­ir óþekkta vírusa allt að 1.000 sinn­um hraðar en nú­ver­andi lausn­ir. Markaður­inn fyr­ir þær lausn­ir nem­ur mörg­um millj­örðum Banda­ríkja­dala.

Meðal viðskipta­vina Var­ist eru stærstu tæknifyr­ir­tæki heims en lausn­ir fyr­ir­tæk­is­ins skanna allt að 400 millj­arða skráa fyr­ir vírus­um á dag og millj­arðar ein­stak­linga eru varðir gegn netárás­um með vör­um Var­ist. Um 30 sér­fræðing­ar starfa hjá fé­lag­inu í dag, þar af um 20 á Íslandi.

Með hluta­fjáraukn­ing­unni breikk­ar hlut­hafa­hóp­ur Var­ist, en stærstu nýju hlut­haf­arn­ir eru Eyr­ir Vöxt­ur og Kjöl­ur fjár­fest­ing­ar­fé­lag. Sam­hliða hluta­fjáraukn­ing­unni færðist eign­ar­hlut­ur OK til hlut­hafa OK og er því fram­taks­sjóður­inn VEX stærsti hlut­hafi fé­lags­ins í dag.

Previous
Previous

IS Haf kaupir meirihluta í NP Innovation

Next
Next

ARMA Advisory tekur til starfa